Umsögn Femínískra fjármála um fjárlagafrumvarpið 2026
Femnísk fjármál gagnrýna þá niðurskurðarstefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu 2026
Félagið Femínísk fjármál hefur, líkt og fyrri ár, skilað inn umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Félagið fagnar því að kynjasjónarmið hafi í auknum mæli verið samþætt í greiningu útgjalda, en telur greiningarnar yfirborðskenndar og án nægilegs samhengi við áhrif á jafnrétti. Sérstaklega sé ábótavant að greina tekjuhliðina og áhrif skattastyrkja á jafnrétti.
Félagið gagnrýnir niðurskurðarstefnu ríkisstjórnarinnar sem muni bitna á viðkvæmustu hópum samfélagsins og grafa undan jafnrétti. Sérstaklega er bent á skerðingar í heilbrigðiskerfinu og aukna greiðsluþátttöku sjúkratryggðra sem gæti aukið kynjabil í aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Í umsögninni er einnig fjallað um mönnunarvanda í heilbrigðisþjónustu og mikilvægi þess að stjórnvöld fjárfesti í aðgerðum sem stuðla að bættri stöðu starfsfólks í heilbrigðis- og umönnunarþjónustu. Félagið bendir á að ólaunuð umönnun hvíli enn að mestu á konum með tilheyrandi áhrifum á atvinnuþátttöku, lífeyrisréttindi og heilsu.
Femínísk fjármál fagna niðurfellingu samnýtingar skattþrepa, sem hefur fremur runnið til tekjuhærri hópa samfélagsins og í meirihluta til karla, en gagnrýna hækkun frítekjumarks ellilífeyris sem líkleg sé til að nýtast tekjuhærri körlum fremur en tekjulægri konum. Þá er harðlega gagnrýnt að ekki sé tryggt að aukið fjármagn til löggæslu renni í eflingu kynferðisbrotadeildar lögreglu, sem og fræðslu um eðli og afleiðingar kynferðisbrota til lögreglu og dómstóla.
Að lokum leggur félagið áherslu á að fjármunum til varnarmála sé betur varið í mannúðaraðstoð og mótttöku flóttafólks. Félagið krefst þess að jafnrétti og mannréttindi verði raunveruleg leiðarljós íslenskrar utanríkisstefnu.
Umsögnina í heild sinni má nálgast hér